Upplýsingar

Ábyrgar fjárfestingar

Stjórn A/F Rekstraraðila hf. hefur samþykkt að sjóðir í rekstri þess skuli leitast við að fjárfesta með ábyrgum hætti og um leið beita áhrifum sínum til að útgefendur þeirra fjármálagerninga sem sjóðir þess fjárfesta í, fylgi góðum stjórnarháttum og séu ábyrg félagslega og umhverfislega.

Sjálfbær þróun og ábyrgar fjárfestingar

Sjálfbær þróun snýr að þremur meginstoðum þ.e. efnahagslegum, samfélagslegum og umhverfislegum þar sem gerð er krafa um jafnvægi milli stoðanna. Ábyrgar fjárfestingar eru mikilvægur hluti í sjálfbærri þróun þar sem þær fela í sér að við fjárfestingarákvarðanir er ekki eingöngu tekið mið af fjárhagslegum þáttum heldur sé einnig horft til umhverfisþátta, félagsþátta og stjórnarhátta þ.e. UFS (e. ESG). Við fjárfestingarákvarðanir er metið sem svo að fjárhagsleg markmið og ábyrg markmið séu samræmanleg og stuðli að bættum hag fjárfesta. 

Stefna AFR um ábyrgar fjárfestingar byggir á samfélagssáttmála Sameinuðu þjóðanna (e. UN Global Compact), Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Sustainable Development Goals) og alþjóðlegum meginreglum um ábyrgar fjárfestingar (e. United Nations Principles for Responsible Investments - UNPRI).

  • UN Global Compact sáttmálinn sem gerður var árið 2000 af Sameinuðu þjóðunum er settur fram sem tíu grundvallarviðmið skipt í mannréttindi, vinnumarkað, umhverfi og aðgerðir gegn spillingu.
  • Meginreglur um ábyrgar fjárfestingar eru settar fram af samtökum um ábyrgar fjárfestingar sem kallast UN Principles for Responsible Investments sem er alþjóðlegt samstarf stofnanafjárfesta sem starfar í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar.
  • Sameinuðu þjóðirnar settu fram árið 2015 Heimsmarkmið (e. Sustainable Development Goals) og hafa öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna innleitt markmiðin, þar á meðal Ísland. Markmiðin eru ákall um aðgerðir sem bæta lífsskilyrði á jörðinni. Lesa má um markmiðin hér .

Heimsmarkmið SÞ

Tilgangur stefnu

Tilgangur stefnu þessarar er að skýra verklag og setja fram viðmið AFR við ábyrgar fjárfestingar. Leitast er við að hafa áhrif á stjórnendur fyrirtækja, draga úr áhættu og minnka tapsáhættu af fjárfestingum með beitingu stefnu þessarar. AFR telur að fyrirtæki sem starfa í sátt við haghafa sína, eru samfélagslega ábyrg og hafa sett sér og fylgja stefnu um sjálfbæra þróun munu vegna betur og skila betri arðsemi til lengri tíma litið en samkeppnisaðilar sem gera það ekki. Auk þess að áhætta tengd rekstri þeirra félaga verði minni.

Markmið og áherslur 

Sjóðir í rekstri AFR hafa fyrirfram ákveðna fjárfestingastefnu og fjárfestingamarkmið um eignasafn sem sjóðstjóri skal fylgja. Auk þess skal sjóðstjóri leitast við að hámarka ávöxtun viðkomandi sjóðs að teknu tilliti til áhættu. 

Til þess að ná markmiðum um ábyrgar fjárfestingar munu starfsmenn AFR  horfa til og leitast við að fylgja sex meginreglum UN PRI um ábyrgar fjárfestingar:

  1. Við munum taka mið af UFS við greiningu fjárfestingarkosta og við ákvörðunartöku.
  2. Við ætlum að vera virkur eigandi sem tekur tillit til UFS bæði í eigendastefnum og í verki.
  3. Við munum kalla eftir viðeigandi upplýsingagjöf um UFS frá aðilum sem við fjárfestum í.
  4. Við munum beita okkur fyrir viðurkenningu á og innleiðingu þessara meginreglna í fjárfestingastarfsemi.
  5. Við munum vinna saman að því að efla árangur við innleiðingu meginreglnanna.
  6. Við skilum skýrslum um starfsemi okkar og upplýsum um árangur við innleiðingu meginreglnanna.

Aðferðafræði og framkvæmd

AFR og starfsmenn þess eru meðvituð um að fjárfestar eru í auknum mæli farnir að setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum og hafa væntingar til að aðilar sem stýra eignum í þeirra umboði horfi til UFS þátta við fjárfestinga- og lánaákvarðanir. AFR hefur mótað útilokunarlista sem inniheldur þá eignaflokka/þá atvinnugeira sem ekki er fjárfest í. AFR hefur einnig mótað ferli við innra mat á UFS þáttum útgefenda þar sem stuðst er við spurningarlista, sem mótaður er að starfsmönnum AFR, sem og önnur viðeigandi gögn.

Við þróun á aðferðafræði AFR við ábyrgar fjárfestingar voru m.a. UFS leiðbeiningar Nasdaq , útgefnar í febrúar 2020, hafðar til hliðsjónar og má sjá hér í töflu.

UFS leiðbeiningar Nasdaq

Aðferðarfræði sjóða AFR má skipta í þrennt:

  1. Fjárfestingaferli
    • Fjárfestingar sjóðsins skulu fylgja lögum, reglum og starfsreglum sjóðsins eins og þar er kveðið á um.
    • Útgefendur fjármálagerninga mega ekki vera á útilokunarlista skv. stefnu AFR.
  2. Könnun á UFS þáttum hjá útgefendum verðbréfa sjóðsins
    • Gert er innra mat á UFS þáttum útgefanda og stuðst við fyrirliggjandi og opinber gögn ásamt svörum við spurningalista, ef upplýsingar er ekki að finna opinberlega.
  3. Skýrslugerð
    • Samhliða yfirliti um eignasafni og ávöxtun er fjárfestum gerð grein fyrir stöðu á UFS þáttum á eignasafni sjóðsins  og innra mati.

Endanleg ákvörðun um fjárfestingu ræðst af því hvort könnun á UFS þáttum útgefenda samkvæmt mati sjóðstjóri bendi til þess að fjárfestingu fylgi of mikil áhætta fyrir hagaðila, þ.e. sjóðinn, eigendur hans, AFR og aðra. Leitast verður eftir því að útgefendur taki upp ferla og stefnur sem uppfylla kröfur um samfélagslega ábyrgð og verður UFS matið endurskoðað á meðan fjárfestingu stendur. 

Aðferðafræði og framkvæmd ábyrgra fjárfestinga er í sífelldri þróun innan AFR og mun  AFR endurskoða og uppfæra stefnu þessa eftir því sem talin er ástæða til. 

Útilokun fjárfestinga

Við fjárfestingaferli og ferli lánveitinga útilokar AFR að fjárfesta í atvinnugeirum sem stangast á við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Á það aðallega við um erlenda útgefendur, en varðar innlenda útgefendur einnig. Fjárfestingar í fjármálagerningum útgefnum af fyrirtækjum sem ekki fylgja alþjóðlegum samningum eru því útilokaðar, svo sem 

  • fyrirtækjum sem framleiða hergögn, svo sem vopn og sprengjur
  • fyrirtækjum sem brjóta gegn mannréttindum eða stunda barnaþrælkun
  • fyrirtækjum sem framleiða vörur sem geta valdið heilsufarslegum skaða (tóbak, kannabis, o.s.frv.)
  • fyrirtækjum sem eru óábyrg gagnvart umhverfinu, þ.e.a.s. eru í starfsemi sem hefur í för með sér óafturkræf áhrif á vistkerfi okkar, hvort sem er á landi eða sjó, og dregur mögulega úr líffræðilegri fjölbreytni eða stuðlar að ósjálfbærri nýtingu auðlinda.

Eigendastefna

Markmið AFR með stefnu um ábyrgar fjárfestingar er að stuðla að umhverfisvernd, betri félagsaðstæðum og bættum stjórnarháttum. AFR mun hvetja stjórnendur fyrirtækja til að innleiða þessa þætti í starfsemi sína og til að gera enn betur í þeim málum sem hafin eru.